Engeyjarprinsinn.

 

Nú virðist allt benda til þess að Engeyjardýnastían sé enn einu sinni að komast til æðstu valda hér. Krónprinsinn mættur til leiks.

Hvað skyldi vera á bakvið þessa þróun? Og hvað skyldi hún boða?

Mér sýnist það allavega ekki boða endurnýjun í Sjálfstæðisflokknum. Nema síður sé. Enda okkar dæmigerði íhaldsflokkur. Og ekki lítið í húfi. Öll þau ítök, sem hann hefur haft og nælt sér í gegnum mestan part lýðveldissögunnar eru nú sannarlega þess virði að halda í. Hvað svo sem öllum heitstrengingum um "nýtt lýðveldi" líður.

Mér finnst smám saman verða æ ljósara hvert stefnir, síðast í Spegli Egils. Þar benti Bjarni Benediksson á að á Íslandi væri ekki rými fyrir annað en fákeppni á helztu viðskiptasviðum og þannig muni það vera um ókomna framtíð. Þarna kemur einn úr einum helzta fákeppnisbransanum, olíusölu, sem sannarlega hefur nýtt sér fákeppni á ýmsan hátt, einsog allir vita. Fákeppni er ekki skárri en einokun. Það sjáum við einmitt hjá olíufélögunum, þegar þau hækka og lækka verð nánast á sama klukkutíma öll í einu. Þegar heimsmarkaðsverð olíu lækkar bíða þau öll í þónokkurn tíma með að lækka hér vegna þess að þau þurfa auðvitað að selja "gamlar birgðir" á gamla verðinu. Ef heimsmarkaðsverð hækkar hinsvegar, þá eru aldrei til neinar birgðir hjá neinu þeirra og verðið hækkar í hvelli.

Þegar öllu er á botninn hvolft er heilmikið til í þessu með fákeppnina. Að því leytinu má segja að Bjarni hafi vikið af venjubundinni lógík Sjálfstæðismanna. Þeir hafa hingað til mært hina óvöktuðu, frjálsu samkeppni, sem væri svo hrikalega góð t.d. í BNA. Sannlega vöruðu þá einhverjir við hættunni á fákeppni, en það þótti ekki góð latína né umhugsunarverð, jaðraði við guðlast. Og greinilega fannst Bjarna þetta vera eitthvað, sem Íslendingar þyrftu að búa við um ókomna framtíð. Sorrí.

Í annan stað vildi Bjarni ekki dæma fjársýslumenn síðustu missera hart. Enga sleggjudóma. Kannski væri ekki við nokkurn að sakast voru um það hvernig væri komið fyrir okkur.

Á Alþingi vildu Sjálfstæðismenn hætta að þinga og fara í kosningar sem allra fyrst. Eftir 3j mánaða stjórnarsetu eftir krakkið voru viðbrögð með eindæmum silaleg og klaufaleg, en eftir stjórnarskiptin voru þeir strax farnir að hneykslast yfir seinagangi núríkjandi stjórnar, sem hefur 80 daga framkvæmda.

Nú síðast eru þeir að finna umræddu stjórnlagaþingi ýmislegt til foráttu. Ég hef ekki heyrt neinn Sjálfstæðismann lýsa yfir einlægum áhuga á slíku þingi. Reiknaðar eru himinháar kostnaðartölur. Hvers vegna gera þeir þá ekki breytingartillögur um stærð og umfang hins umrædda þings, sem mér sjálfum finnst ætlað að verða ótæpilegt monster, sitjandi með aðstoðarmenn dag eftir dag í allt að tvö ár!

Það virðist ekki vera áhugi á breytingum. Hið takmarkaða lýðræði okkar hefur verið ágætt til síns brúks hingað til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband